Verðmæti norska olíusjóðsins hefur aukist um 233 milljarða norskra króna (4.660 milljarðar íslenskir) á tveimur mánuðum og hefur sjóðurinn aldrei verið digurri en nú.

Sjóðurinn telur nú litla 2.308 milljarða norskra króna miðað við stöðuna í byrjun maí samkvæmt tölum sem lagðar voru fram nýlega. Fer sú tala í sögubækurnar. Þetta eru rúmir 46 þúsund milljarðar íslenskra króna. Staðan á sjóðunum var 2.196 norskir milljarðar í byrjun apríl og hafði hann þá vaxið um 6% frá því í mars. Staðan í maí var 2.308 milljarðar eins og áður segir og hafði sjóðurinn vaxið um 5,1% frá í apríl.

Stjórnendur sjóðsins geta nú andað léttara og notið þeirrar uppsveiflu sem orðið hefur á hlutabréfamarkaðnum í vor og byrjun sumars í tengslum við olíuiðnaðinn eftir að sjóðurinn tapaði 199 milljörðum norskra króna á fyrsta fjórðungi ársins. Heimild: Fiskeribladet/Fiskaren.