Norski olíusjóðurinn hefur nú náð þeirri stærð að vera yfir 500 milljarða dala virði.

Seðlabanki Noregs kynnti í morgun nýjar tölur um stærð sjóðsins sem nemur nú um 3 þúsund milljörðum norskra króna, eða um 513 milljörðum dala.

Norski olíusjóðurinn, eins og hann er oftast kallaður, er í raun ríkisrekinn lífeyrissjóður Norðmanna og var frá árinu 1996 byggður upp af olíuiðnaðinum í Noregi. Sjóðurinn stundar þó fjárfestingar út um allan heim eftir ströngum reglum en fjárfestir þó aldrei í Noregi.

Samkvæmt fyrrnefndum tölum getur norska ríkisstjórnin varið um 600 þúsund norskum krónum, eða um 103 þúsund Bandaríkjadölum, í lífeyri hvers Norðmanns.