Yngve Slyngstad, stjórnandi ríkisrekins eftirlaunasjóðs Norðmanna sem fjárfestir fyrir olíuauð landsins, segir að sjóðurinn muni innan fárra vikna eiga yfir 1% allra evrópskra hlutabréfa.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis. Þar segir jafnframt:

Í viðtali við fréttastofu Reuters segir Yngve að hinn svokallaði olíusjóður sjái tækifæri í núverandi óróa á mörkuðum og hafi verið stórtækur kaupandi hlutabréfa á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Sjóðurinn hefur sett upp sérstaka deild með áherslu á þéttingu eignarhalds til að framfylgja nýrri stefnu um að auka fjárfestingar í hlutabréfum úr 40% í 60% af heildareignum.

Fór sjóðurinn af því tilefni fram á að heimild hans til fjárfestingar í einstökum fyrirtækjum yrði aukin úr 5% í 15%. Norsk yfirvöld veittu í kjölfarið sjóðnum heimild til að kaupa allt að 10% hlut í einstökum félögum.

Snýr vörn í sókn

Ráðstöfunarfé norska olíusjóðsins til fjárfestingar hefur aukist vegna hækkunar olíuverðs . Sjóðurinn skilaði 12.7% neikvæðri ávöxtun á fyrsta ársfjórðungi vegna lækkunar á hlutabréfaverði í heiminum, en nýtti sér jafnframt lágt hlutabréfaverð, markaðssveiflur og óvissu á tímabilinu sér til hagsbóta, að sögn Yngve.