Norski olíusjóðurinn tók 287 milljón evra (25,5 milljarðar íslenskra króna) skortstöðu í skuldabréfum Kaupþings banka og Landsbanka Íslands og veðjaði á að verðgildi bréfanna myndi rýrna. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag, og vitnar í breska fjármálablaðið Financial News.

Viðskiptablaðið sagði frá því í Bæjarrómi í síðasta mánuði að orðrómur væri á markaði um að sjóðurinn hefði tekið skortstoðu í skuldabréfum bankanna. En heimildamaður blaðsins, innan Norska olíusjóðsins, neitaði því alfarið. Hins vegar sagði hann að eftirspurn væri eftir að fá íslensk hlutabréf í eigu safnsins að láni til að skortselja. Heimildarmaður Viðskiptablaðsins sagði að ekki hefði komið til greina að lána bréfin.

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, segir í samtali við Morgunblaðið að honum finnist þessi hegðun Norska olíusjóðsins mjög óvenjuleg.

?Ég hef alltaf skilið þennan sjóð þannig að hann eigi að vera varasjóður og langtímalífeyrissjóður fyrir Noreg og það sem maður hefur séð hvað viðskiptalegar ákvarðanir sjóðsins varðar þá finnst mér það ekki líkjast viðskiptalegri hegðun hefðbundins lífeyrissjóðs, heldur miklu frekar er eins og að hluti af sjóðnum sé rekinn eins og einhvers konar vogunarsjóður," segir Halldór.

?Það kemur á óvart, forráðamenn sjóðsins hafa ekki vaxið í áliti hjá mér við að sjá þessa hegðun."