Norski seðlabankinn tilkynnti í dag um 0,25 prósenta hækkun á stýrivöxtum, sem voru fyrir ákvörðunina í núlli. Seðlabankinn gaf til kynna að líkur væru á að vextir myndu aftur hækka í desember og myndu ná 1,7% fyrir lok árs 2024.

Norski seðlabankinn er þar með fyrsti stóri seðlabankinn í heimi til að hækka stýrivexti frá því að Covid-faraldurinn hófst, að því er kemur fram í frétt Financial Times . Bent er á að Ísland, Suður-Kórea og Brasilía hafi þegar hækkað vexti en Noregur væri fyrsta þjóðin með einn af tíu helstu gjaldmiðlum heims til að ráðast í þessa aðgerð.

Ástæðan sem norski seðlabankinn gaf fyrir hækkuninni eru aukin efnahagsumsvif í norska hagkerfinu. Fyrir vikið væri í lagi að peningastefnan fari núna hægt og rólega að nálgast eðlilegt horf, sagði Oystein Olsen, seðlabankastjóri Norges Bank, á blaðamannafundi.