*

miðvikudagur, 22. september 2021
Erlent 22. mars 2019 07:55

Norski Seðlabankinn hækkar vexti

Stýrivextir hækka í Noregi og gengi norsku krónunnar rýkur upp við ákvörðun seðlabankans.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Norska seðlabankans í Osló þar sem allt leikur í lyndi sem endranær.
Haraldur Guðjónsson

Norski seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína í dag og eru vextir bankans nú eitt prósent. Þetta er í annað sinn síðan í september sem bankinn hækkar vexti og sagði Oystein Olsen seðlabankastjóri að frekari hækkun væri á döfinni, mögulega næstkomandi júní. Vaxtaspá bankans gerir ráð að vextir verði 1,75% um mitt ár 2020. Frá þessu er greint á fréttavef Blookmberg.

Gengi norsku krónunnar rauk upp við fréttina enda höfðu flestir reiknað með að bankinn myndi halda vöxtum óbreyttum. Norski seðlabankinn sker sig frá flestum öðrum seðlabönkum heim sem flestir hafa lækkað hagvaxtaspár sínar og horfið frá fyrirhuguðum vaxtahækkunum. Sænski seðlabankinn glímir til að mynda nú við neikvæða raunvexti þrátt fyrir ítrekaðar og dýrar tilraunir til að örva vöxt í landinu. Þá var tilkynnt í gær að vextir í Bandaríkjunum yrðu óbreyttir og horfur um hagvöxt hefðu versnað.

Sagði Olsen á blaðamannafundi að hinn mikli olíuauður þjóðarinnar væri ástæðan fyrir sérstöðu landsins, en bankinn hefur jafnframt yfirumsjón með Norska olíusjóðnum, stærsta þjóðarsjóði (e. sovereign wealth fund) heims.

Stikkorð: Seðlabankinn Norski