Tvær valdamestu konurnar í stjórnsýslunni í norskum sjávarútvegi, Lisbeth Berg Hansen sjávarútvegsráðherra og Liv Holmefjord fiskistofustjóri, eiga samanlagt 108 milljónir norskra króna í hlutabréfum, eða um 2,3 milljarða ISK. Greint er frá þessu á vef Fiskifrétta .

Í Finansavisen kemur fram að Lisbeth Berg Hansen sé auðugasti ráðherrann í norsku ríkisstjórninni en hún á hlutabréf í fjölskyldufyrirtækinu Sinkaberg Hansen sem metin eru á 64 milljónir norskra króna (tæpir 1,4 milljarðar ISK). Liv Holmefjord á hlutabréf í fjölskyldufyrirtækinu Bolaks sem metin eru á 44 milljónir norskar krónur. Bæði þessi fyrirtæki eru í laxeldi.