Lífeyrissjóður norsku ríkisstjórnarinnar, sem metinn er á um 250 milljarða evra, hefur bætt tveimur fyrirtækjum við á „svartan lista“ hjá sér vegna brota á siðareglum sjóðsins. Það eru kanadíski gullframleiðandinn Barrick Gold Corporation og bandaríski vopnaframleiðandinn Textron Inc. Þetta kemur fram á vef Landssambands lífeyrissjóða.

Sjóðurinn, sem hér á Íslandi er oft kallaður norski olíusjóðurinn, segist nú þegar hafa selt 140 milljóna evra hlut sinn í Barrick Gold, stærsta gullframleiðanda heims, vegna gruns um að umhverfisspjöll séu framin við Porgera-námuna í Papúa Nýju Gíneu. Náman er rekin af Porgera Joint Venture en Barrick Gold á 95% í því fyrirtæki.

Fjárfestar um allan heim fylgjast náið með breytingum á bannlista norska sjóðsins vegna þess að siðaráð hans leggur mikið upp úr því að rannsaka vel mál sem honum tengjast. Aðrir stofnaðafjárfestar taka því oft mið af ákvörðunum sjóðsins segir í fréttinni.