Norski olíusjóðurinn hyggst breikka eignasafn sitt verulega og fara nýjar leiðir í fjárfestingum á næstu árum, með það að markmiði að auka ávöxtun sína. Þetta kemur fram í skýrslu sem olíusjóðurinn hefur gefið út um stefnu í fjárfestingum næstu þrjú árin. Fjallað er um málið á vef Financial Times.

Norski velferðarsjóðurinn sér um að ávaxta arð norska ríkisins af olívinnslu og nema eignir sjóðsins um 880 milljörðum Bandaríkjadala. Olíusjóðurinn er einn af stærstu fjárfestum heims og á t.a.m. 1,3% hlutabréfa í heiminum.  Stefna sjóðsins næstu þrjú árin er að auka umsvif sín verulega á fasteignamarkaði. Þannig er stefnt að því að sjóðurinn eignist fleiri fasteignir og mögulega hluti í fasteignafélögum.

Einnig kemur fram að sjóðurinn stefni að því auka hlut sinn í fyrirtækjum og fjölga fyrirtækjum sem sjóðurinn á stóran hlut í. Stefnt er að því að fjölga fyrirtækjum sem sjóðurinn á a.m.k. fimm prósent hlut í úr 45 í 100. Munu tveir þriðju af stórum fjárfestingum sjóðsins vera í evrópskum fyrirtækjum.

Þetta þýðir væntanlega að olíusjóðurinn verður að bæta við sig starfsmönnum á næstu árum. Sérstaklega er reiknað með fjölgun starfsmanna í fasteignadeildum sjóðsins.