„Þetta er mjög jákvætt og í anda þess sem við höfum verið að vinna að, að byggja upp fjölbreytilegar stoðir atvinnulífsins,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, um áform norska fyrirtækisins Stolt Sea Farms, sem hefur óskað eftir framkvæmdaleyfi til eldis á senegalflúru í landi Reykjanesbæjar, nánar tiltekið við Reykjanesvirkjun HS Orku sem staðsett er á Reykjanestá í nágrenni Reykjanesvita.

Árni segir fjárfestinguna nálgast þriðja milljarð króna og að hann vonist til þess að um 70-90 ný störf verði til við framkvæmdina. Þó verði ekki öll til í einu því áætlað er að eldisstöðin verði byggð í þremur áföngum og að ferlið taki 3-5 ár.

Í gögnum sem finna má á vef Skipulagsstofnunar kemur fram að eldisstöðin muni, þegar hún verður fullbúin, verða um 70 þúsund fermetrar, 7 hektarar, að stærð og að ástæða staðarvalsins sé ofgnótt heits vatns á Suðurnesjum sem og nálægðin við uppskipunarhafnir og stóran alþjóðlegan flugvöll. Jafnframt er svæðið skilgreint sem iðnaðarsvæði í aðalskipulagi Reykjanesbæjar og er gert ráð fyrir fiskeldi á því.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.