Nói-Síríus hf. og Orkla ASA hafa komist að samkomulagi um kaup Orkla á 20% hlut í Nóa-Síríus. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Orkla er leiðandi fyrirtæki á neytendavörumarkaði á Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og völdum mörkuðum í Mið-Evrópu og á Indlandi. Orkla er skráð á hlutabréfamarkað í Noregi og eru höfuðstöðvar fyrirtækisins í Osló. Velta félagsins árið 2018 var um 41 milljarður norskra króna og eru starfsmenn félagsins yfir 18 þúsund talsins,“ segir í tilkynningunni.

Fjármálaráðgjöf Deloitte hafði umsjón með ferlinu og var ráðgjafi Nóa-Síríus. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

„Það er mikil viðurkenning fyrir starfsemi og vörumerki Nóa-Síríus, sem fagnar 100 ára afmæli á næsta ári, að fá Orkla inn í hluthafahópinn. Við eigum von á að samstarfið við Orkla verði farsælt og sjáum tækifæri í því fyrir Nóa-Síríus til framtíðar," segir Áslaug Gunnarsdóttir, stjórnarformaður Nóa-Síríus:

„Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu og hlökkum til að vinna með Orkla að rekstri félagsins. Nói-Síríus byggir á rótgrónum og traustum grunni og munum við halda áfram þeirri vegferð sem fyrirtækið hefur verið á undanfarin ár. Við gerum þó ráð fyrir að nýr hluthafi muni leggja sitt af mörkum við að styrkja og efla starfsemi félagsins enn frekar á jákvæðan hátt fyrir fyrirtækið í heild, starfsfólk þess og viðskiptavini," segir Finnur Geirsson, forstjóri Nóa-Síríus.

„Nói-Síríus hefur sérstöðu á Íslandi og fellur fyrirtækið vel að leiðandi vörumerkjum í eignasafni Orkla. Súkkulaði, snakk og sælgæti, sem eru megin vöruflokkar hjá Orkla, eru vöruflokkar sem eru að vaxa mikið. Við sjáum mikil tækifæri til að skapa virði með því að nýta styrkleika fyrirtækjanna þvert á markaði, auka skilvirkni í framleiðslu Nóa-Síríus og styrkja stöðu Orkla á Íslandi, sem er vaxandi markaður," segir Jeanette Hauan Fladby, forstjóri Orkla Confectionery & Snacks.