Norska félagið Wilson ASA hefur keypt 51,9% af hlutafé íslenska skipafélagsins Nesskips, fyrir 124 milljónir norskra króna, eða 1,4 milljarða íslenskra króna. Frá þessu segir Dow Jones.

Áætlað er að ganga frá viðskiptunum í maí eða júní, segir í fréttatilkynningu frá Wilson. Þá segir einnig að heildarvirði Nesskips sé 240 milljónir norskra króna, eða rúmlega 2,7 milljarða íslenskra króna. Nesskip skilaði 2,4 milljarða króna tekjum á síðasta ári og 400 milljóna króna hagnaði fyrir skatta.

Hópur manna undir forystu Guðmundar Ásgeirssonar stofnaði Nesskip árið 1974. Nesskip veitir viðskiptavinum sínum alhliða þjónustu á sviði flutninga, skipamiðlunar, umboðsþjónustu fyrir erlend skip og ráðgjöf sem snýr að skipaflutningum og -miðlun.