Skuldabréf Arion banka í norskum krónum verða tekin til viðskipta í Kauphöllinni í Osló í dag. Skuldabréfaflokkurinn er upp á 500 milljónir norskra króna að nafnvirði, jafnvirði 11,2 milljarða íslenskra króna. Þau bera fljótandi vexti 5% ofan á NIBOR og eru til þriggja ára með lokagjalddaga árið 2016. Skuldabréfaútboði Arion banka með bréfin lauk 22. febrúar síðastliðinn og tóku um 60 fjárfestar í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Bretlandi, meginlandi Evrópu og Asíu þátt í útboðinu. Þetta var fyrsta fjármögnun íslensks fjármálafyrirtækis á erlendri grundu frá árinu 2007.

Fram kemur í tilkynningu frá Arion banka að umsjónarmaður útgáfunnar var Pareto Öhman.

Í aðdraganda útgáfunnar réðst bankinn í umfangsmikla kynningarherferð og funduðu forsvarsmenn hans með fjárfestum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og á hinum Norðurlöndunum.