Norska laxeldisfyrirtækið SalMar hefur keypt 22,9% hlut í Arnarlaxi. Kaupverð hlutarins nemur 43,4 milljónum norskra króna sem jafngildir um 650 milljónum íslenskra króna. Miðað við kaupverð hlutarins er heildarvirði Arnarlax rúmir 2,8 milljarðar króna, að því er segir í frétt Morgunblaðsins . Við lokun markaða í gær var markaðsvirði SalMar um 285 milljarðar íslenskra króna.

SalMar kaupir hlutinn af fjárfestum sem áttu hlut í hinu norska eignarhaldsfélagi Kvitholmen sem farið hefur með eignarhaldið á Arnarlaxi. Stærstu eigendur félagsins eru eftir sem áður feðgarnir Matthías Garðarsson og Kristian Matthíasson. Þá á tryggingafélagið TM einnig 10% hlut í félaginu og seldi ekki hlut sinn í viðskiptunum. Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, fagnar aðkomu SalMar að fyrirtækinu í samtali við Morgunblaðið.

Spurður út í hvaða áhrif þetta muni hafa á fyrirtækið segir Kjartan að það muni tíminn leiða í ljós. „Það segir sína sögu um mat þeirra á framtíðarmöguleika í laxeldi á Íslandi.“