Norski alþingismaðurinn Peter S. Gitmark hefur krafið fjármálaráðherrann Kirstin Halvorsen útskýringa á því hvers vegna ráðuneytið hafi ákveðið að fara eftir tilmælum norska fjármálaeftirlitsins um fjárfestingu Kaupþings í Storebrand. Þetta kemur fram í norska viðskiptablaðinu Dagens Næringsliv.

Fjármálaeftirlitið, sem nefnist Kredittilsynet, hefur mælt gegn því að Kaupþing eignist meira en 25% hlut í Storebrand en bankinn hefur fengið heimild til að eignast 20% hlut. Kaupþing og tengdir aðilar eiga um 16% í norska tryggingarfyrirtækinu.

Ástæða fyrir niðurstöðu Kredittilsynet er sú að stofnunin telur Kaupþing of áhættusækinn banka, íslenska hagkerfið í óvissu og að bankinn hafi ekki næga reynslu af rekstri tryggingarfélaga.

Gitmark telur að norsk yfirvöld skuli ekki vega og meta fjárfestingu erlendra aðila í fjármálfyritækjum á grunvelli þjóðernis hugsanlegra kaupenda.