Norski bankinn DnB mun fjármagna að stærstum hluta þær fjárfestingar í nýsmíði skipa sem framundan eru hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Áætlað er að fjárfestingarnar nemi um 40 milljörðum króna á næstu árum. Morgunblaðið greinir frá málinu.

Forsvarsmenn íslensku bankanna hafa áhyggjur af þessari þróun þar sem þeir séu ekki samkeppnisfærir í vaxtakjörum. Þannig gætu öflugustu sjávarútvegsfyrirtækin fært viðskipti sín í auknum mæli til erlendra banka þegar fram líði stundir. Freyr Þórðarson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Arion banka, segir í samtali við Morgunblaðið að hann telji þó ekki að þessi þróun sé til marks um að erlendir bankar hafi uppi áform um að festa sig í sessi á almennum markaði með lán til íslenskra útgerðarfélaga. Þeir hafi fremur komið auga á afmarkað tækifæri hér á landi sem einkum snúi að nýsmíði skipa.