Norski laxaframleiðandinn SalMar hefur samið við hátæknifyrirtækið Völku um kaup og uppsetningu á fullkomnu laxavinnslukerfi í nýrri InnovaNor verksmiðju SalMar í Lenvik í Noregi.

Samningurinn við Völku felur í sér uppsetningu á fullkomlega sjálfvirku flokkunar- og dreifikerfi auk samþættra pökkunarkerfa með vinnslugetu fyrir allt að 200 fiska á mínútu. Innifalið í samningnum er einnig hugbúnaður frá Völku sem stýrir öllu framleiðsluferlinu, frá slátrun til tilbúinna afurða.

Markmið SalMar er nýta tæknina i InnovaNor verksmiðjunni til þess að draga úr framleiðslukostnaði, auka framleiðni, bæta efnismeðferð og gæði vöru á þann hátt að vinnslan verði sú skilvirkasta í heimi og með lægstan kostnað við hvert framleitt kíló af laxi. Gert er ráð fyrir að framleiðsla í verksmiðjunni hefjist seinni hluta árs 2021.

„Frá okkar fyrsta fundi með fulltrúum Völku urðum við vör við mikinn metnað, sveigjanleika og vilja til að koma til móts við hugsanir, hugmyndir og framtíðarsýn SalMar til þess að sníða kerfið að þörfum okkar. InnovaNor verksmiðjan verður sú fullkomnasta sinnar tegundar í heiminum og við erum spennt fyrir að vinna frekar með Völku að þessu verkefni sem mun breyta atvinnugreininni,“ segir Ole Meland tæknistjóri hjá SalMar.

Valka var stofnað árið 2003 og sérhæfir sig í hátæknilausnum í sjávarútvegi og hefur meðal annars verið leiðandi í þróun á vatnsskurðarvélum. Fyrirtækið hefur verið í örum vexti og tvöfaldaðist velta Völku árið 2018 frá fyrra ári. Valka býður upp á vörulínur fyrir bæði hvítfiskvinnslu og laxavinnslu. Fyrirtækið starfar á alþjóðamarkaði og selur vörur og þjónustu víðsvegar í Evrópu og Bandaríkjunum.

„SalMar eru í fararbroddi í sínum geira þegar kemur að framleiðslugetu og skilvirkni og því erum við virkilega ánægð með að hafa verið valin í þetta stóra og mikilvæga verkefni. Þetta er stórt og spennandi skref í því að styrkja stöðu Völku í laxaiðnaðinum. Við vitum að þetta verður krefjandi verkefni en við leggjum allt í að uppfylla og mæta væntingum viðskiptavinarins og gott betur,“ segir Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.