Hollenski eldisrisinn Nutreco Holding og norska fyrirtækið Stolt-Nielsen hafa ákveðið að sameina eldisstarfsemi fyrirtækjanna og mun sameiningin ganga í gegn á fyrri hluta ársins 2005. Fyrir samrunann var Nutreco stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi og Stolt Sea Farm var fjórða stærsta. Sameinað verður fyrirtækið stærsta eldisfyrirtæki í heimi og munu hluthafar Nutreco eiga 75% en hluthafar Stolt 25% í sameinuðu fyrirtæki.

Í Morgunkorni Íslandsbanka kemurfram að Nutreco hafði um nokkurt skeið skoðað sameiningarmöguleika og höfðu ýmis eldisfyrirtæki verið nefnd til sögunnar. Nýja fyrirtækið mun heita Marine Harvest og verður með höfuðstöðvar í Hollandi. Bæði Nutreco og Stolt Sea Farm voru með umfangsmikla eldisstarfsemi í Noregi, Skotlandi, Chile, Kanada og Ástralíu og mun Marine Harvest verða þar áfram og auk þess verður starfsemi í Hollandi, Japan og Írlandi.

Marine Harvest mun framleiða lax, silung og ýmsan annan eldisfisk. Áætlað er að starfsfólk verði ríflega 6.000 talsins hjá nýja risanum og ársveltan er talin munu verða u.þ.b. 1 milljarður evra. Samkvæmt tilkynningu er stefnan sett á að skrá fyrirtækið á hlutabréfamarkað en ekki liggur fyrir hvar segir í Morgunkorni Íslandsbanka.