Nortek ehf. hefur gert 270 milljóna samning við tyrknesku skipasmíðastöðina Celiktrans í Suður-Istanbúl. Samningurinn felur í sér að Nortek hannar og setur upp öryggis- og tæknibúnað ásamt gagnaveri í þrjá ísfisktogara sem skipasmíðastöðin er með í smíðum fyrir HB Granda.

Í tilkynningu kemur fram að Nortek gerði á dögunum annan samning um samskonar verkefni í fjögur skip fyrir Samherja, Útgerðarfélag Akureyrar og Fisk Seafood á Sauðárkróki. Það var stærsti einstaki samningurinn sem Nortek hefur gert frá upphafi og nam verðmæti hans 350 milljónum króna.

Segir í tilkynningunni að þessir tveir samningar muni skapa fjölda hátæknistarfa á Íslandi og í Noregi og að fyrirtækið muni þurfa að fjölga tæknimenntuðu starfsfólki vegna samninganna.

Meðal þess sem sett verður upp í togurunum er vöktunarkerfi, en í því sér skipstjórinn legu skipsins myndrænt, halla þess og hversu djúpt það ristir. Olíueyðsla og raforkunotkun sést einnig í rauntíma, allar upplýsingar og viðvaranir skráðar, ásamt því að siglingaljósum og ljósum á dekki er stjórnað frá skjánum. Undirmyndir í vöktunarkerfinu sýna olíubyrgðir, raforkuframleiðslu og raforkunotkun.