Ríkisstjórn Bretlands ætlar að kynna ný lög til að þjóðnýta Northern Rock. Í Vegvísi Landsbankans segir að í september á síðasta ári hafi Northern Rock verið fyrsti breski bankinn í 140 ár til að verða fyrir bankaáhlaupi.

Bankinn hefur verið í sölumeðferð en tveimur kauptilboðum hefur verið hafnað. Viðskipti með hlutabréf bankans voru stöðvuð í morgun. Talsmaður breskra hluthafa segir að málið muni fara fyrir dómstóla þar sem hann telur að hluthafar Northern Rock muni koma illa út úr þessu. Alistair Darling, fjármálaráðherra, hefur neitað að ræða kaupverð ríkisins á bankanum. Ný bráðabirgðalög Darling mun kynna nýju bráðabirgðalögin á breska þinginu seinnipartinn í dag. Þetta er fyrsta þjóðnýting banka á Englandi síðan 1984 og er talið að aðgerðin muni draga úr trúverðugleika Verkamannaflokksins til að stýra á hagkerfinu. Lögin, sem verða kynnt í dag, gefa yfirvöldum yfirgripsmikil völd til að leggja hald á aðra banka sem lenda í vandræðum, en lögin munu þó falla úr gildi eftir eitt ár. Efnahagsreikningi bankans hefur nú þegar verið bætt við efnahag ríkisins. Skuldir ríkisins nema nú í fyrsta sinn síðan 1997, þegar Verkamannaflokkurinn tók við, meira en 40% af landsframleiðslu, samkvæmt því sem segir í Vegvísi Landsbankans.