Fjármálaráðuneytið breska hefur ákveðið að þjóðnýta Northern Rock, bankann sem fyrir hálfu ári lenti í vandræðum vegna erfiðleikanna á lánamörkuðum heimsins. Þetta kemur fram hjá WSJ, sem segir að aðgerðin sé óvænt, en að undanförnu hefur verið reynt að finna kaupanda að bankanum. Þess hafði verið vænst að ákvörðun um framtíð bankans yrði ekki tekin fyrr en 17. næsta mánaðar.

Northern Rock, sem er einn stærsti veðlánabanki Bretlands, lenti í því að þurfa aðstoð Englandsbanka vegna lausafjárerfiðleika. Þeir sem áttu sparifé á reikningum bankans streymdu í útibú hans til að taka út og bankinn hefur síðan átt í miklum erfiðleikum.