Breski bankinn Northern Rock, sem í fyrra var þjóðnýttur af breskum yfirvöldum, tapaði alls 1,4 milljarði Sterlingspunda á síðasta ári.

Það er í takt við afkomuspá bankans frá því í síðustu viku en í uppgjörstilkynningu frá bankanum í dag kemur fram að rekstur hans gangi samkvæmt áætlun.

Eignir bankans hafa þó aukist nokkuð en samkvæmt vef BBC eru það þó ekki skemmtilegar fréttir því fasteignahlutur bankans hefur vaxið um 63% milli ára og bankinn er nú með rúmlega 3.600 íbúðir í sinni umsjá eftir fjárnám.

Bresk yfirvöld lánuðu bankanum 26,9 milljarða punda í byrjun síðasta árs og samkvæmt uppgjörstilkynningu bankans skuldar hann einungis 8,9 milljarða af því láni. Þá verður allt kapp lagt á það að endurgreiða lánið að fullu á þessu ári.

Í síðustu viku tilkynnti bankinn að hann myndi þó verja um 14 milljörðum Sterlingspunda á næstu tveimur árum til húsnæðislána í þeim tilgangi að koma hreyfingu á fasteignamarkaðinn þar í landi á ný.