Northern Travel hefur áhuga á að kaupa flugfélög og ferðaskrifstofur í Noregi, segir stjórnarformaðurinn Pálmi Haraldsson í samtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv.

Northern Travel tilkynnti á þriðjudaginn að félagið hefur keypt norræna lággjaldaflugfélagið Sterling af FL Group, en Northern Travel er í eigu eignarhaldsfélagsins Fons, FL Group og Sund ehf. Kaupverðið er 20 milljarðar króna en Fons seldi FL Group Sterling í fyrra fyrir 15 milljarða króna.

Pálmi sagði það koma sér á óvart ef Northern Travel myndi ekki ná fótfestu í Noregi á næsta ári. Danskir fjölmiðlar höfðu eftir Pálma í dag að félagið yrði skráð á markað í Kaupmannahöfn.