Vinna er hafin við það undir stjórn norsku strandgæslunnar að fjarlægja rækjutogarann Northguider af strandstað í Hinlopsundinu við Svalbarða. Skipið strandaði þar í desember 2018. Skipsflak af þessari stærð hefur ekki áður verið fjarlægt af strandstað á svo norðlægum slóðum.

Gerðar voru tilraunir til þess að fjarlægja skipsflakið í fyrra en menn urðu frá að hverfa vegna erfiðra veðurskilyrða og mikils íss. Northguider var smíðaður árið 1988. Hann er 55 m langur og 13 m breiður og með heimahöfn í Bergen.

Stuttu eftir strandið í árslok 2018 var olía, veiðarfæri og raftæki fjarlægð úr skipinu. Það því ekki talið að mikil umhverfisógn stafi af því. En strandstaðurinn er á vernduðu svæði og fyrr eða síðar munu náttúruöflin sjá til þess að brjóta það niður.

Norska strandgæslan hefur gert þá kröfu til útgerðar skipsins að það kosti fjárútlát við það að að fjarlægja skipið og styðst þar við sérstök lög um umhverfisvernd við Svalbarða.

Í tengslum við hreinsunarstarfið hefur norska strandgæslan bannað siglingar á vissum svæðum Hinlopssundsins frá 22. júlí til 30. september.

Togarinn verður skorinn niður í alls 50 hluta á staðnum sem hver vegur um fimm tonn. Brotajárninu verður lyft á pramma sem flytur það um borð í flutningaskip. Norska strandgæslan segir að með þessari aðferð sé framvinda verksins síður háð veðri og vindum. Einnig hafi það minni tilkostnað í för með ef hætta þarf aðgerðum tímabundið þegar ís- og veðurskilyrði breytast.

Gard, vátryggingafélag útgerðar Northguide, borgar brúsann en það er björgunarfyrirtækið SMIT Salvage sem vinnur verkið. Norska strandgæslan leggur til rannsóknaskipið Lance til verkefnsins sem hófst í síðustu viku. Áætluð verklok eru um miðjan september.