Það er ekki bara á Íslandi sem stjórnvöld eru í vandræðum með tónlistarhúsin sín því samkvæmt vef Urban Neighbourhodd eru stjórnvöld í N-Kóreu leita nú eftir erlendum fjárfestum til að klára tónlistarráðstefnuhús sitt í borginni Pyongyang.

Þannig vantar stjórnvöldum um 330 milljónir Bandaríkjadala til að klára hið pýramídalaga Ryugyong Hotel en byggingunni var ætlað að hýsa tónlistar- og ráðstefnuhús auk þess sem þar átti að vera starfrækt hótel.

Samkvæmt upprunalegum áætlunum yfirvalda átti húsið að vera „flaggskip og stolt“ kommúnísku ríkisstjórnarinnar en byggingin var sett á ís árið 1992 vegna skorts á fjármagni.

Síðan þá hefur reglulega verið byrjað á verkinu aftur en þó aðeins í skamman tíma í einu, enn á ný vegna fjármálaskorts. Um tíma höfðu yfirvöld í N-Kóreu afmáð bygginguna af lista yfir opinberar byggingar þar sem framkvæmdin, eða öllu heldur framkvæmdarleysið þótti vandræðalegt í alla staði.

Nú þegar hafa yfirvöld í N-Kóreu varið um 750 milljónum dala í bygginguna eða 2% af landsframleiðslu landsins. Enn er þó óljóst hversu mörg herbergi verða á hótelinu og enn óljósara hverjir koma til með að gista þar í framtíðinni.

Sjá stærri mynd af húsinu hér.