Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) efnir til ráðstefnunnar og verðlauna­afhendingarinnar Íslenski þekkingardagurinn fimmtudaginn 7. febrúar 2008 á Hilton Reykjavik Nordica. Þemað að þessu sinni er Drifkraftar árangurs (Driving performance).

Meðal fyrirlesara ráðstefnunnar er Fredrik Härén, sænskur fyrirlesari og höfundur bókarinnar Idea book, en einnig tala þeir Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital. Ráðstefnustjóri verður Birna Einarsdóttir, framkvæmda­stjóri Viðskiptabankasviðs Glitnis.

FVH veitir í áttunda sinn Íslensku þekkingar­verðlaunin. Að þessu sinni eru verðlaunin veitt því fyrirtæki sem skarað hefur fram úr með tilliti til drifkrafta árangurs. Þau fyrirtæki, sem tilnefnd eru til Íslensku þekkingarverðlaunanna í ár, eru Össur, Norðurál og Kaffitár.