Norðurflug hefur fengið heimild til farþega- og vöruflugs og gildir hún frá og með liðnum mánuði. Norðurflug hefur fram til þessa verið með leyfi til verkflugs og rekur þrjár þyrlur af gerðinni Eurocopter AS-350, SA-365N og Bell 206.

Farþegaflug er þegar hafið hjá Norðurflugi, eftir því sem það fellur til. Framkvæmdastjóri félagsins, Sigtryggur Kristófersson, segir í samtali við Viðskiptablaðið að til standi að hefja áætlunarflug. Verður þar um að ræða bæði farþega- og útsýnisflug.

Sigtryggur segir vera næga eftirspurn eftir þyrluflugi hér á landi. Aðspurður segir hann olíuverð ekki koma verr við Norðurflug en aðra, fyrirtækið haldi sínu striki.