Frá því snemma á þessu ári hefur RÚV sent út dagskrá Sjónvarpsins með stafrænum hætti, og einnig dagskrá Útvarpsins frá því í vor. RÚV býr sig því af fullum krafti undir nýja tíma í íslensku sjónvarpi líkt og aðrar stöðvar á markaðnum. Síminn og Skjár einn munu hefja tilraunaútsendingar á sjónvarpsefni um símalínur í september, og Norðurljós hefja stafrænar sjónvarpsútsendingar um nýtt dreifikerfi í lofti í byrjun nóvember.

Eyjólfur Valdimarsson, forstöðumaður þróunarsviðs RÚV, segir að útsendingarnar séu í samstarfi við verkfræðideild Háskóla Íslands, en stafræni útsendingarbúnaðurinn er staðsettur á Vatnsenda. Enn sem komið er er útsendingarsvæðið takmarkað við nágrenni Vatnsenda, enda útsendingarnar enn á tilraunastigi að sögn Eyjólfs. "Þetta er vísir að því sem koma skal."

Í dag er hægt að ná með sérstökum búnaði stafrænum útsendingum á Rás 1 og Rás 2, Rondo, sem er klassísk tilraunarás, og útsendingar á BBC World Service eru í farvatninu. Stafrænar sjónvarpsútsendingar RÚV byggjast á dagskrá Sjónvarpsins og útsendingum frá Alþingi en að sögn Eyjólfs er ekki ljóst hvernig þær verða byggðar upp þegar útsendingarnar hefjast af fullum krafti.

En með hvaða hætti ætlar RÚV að dreifa sínu sjónvarpsefni, ætlar RÚV að byggja upp eigið dreifikerfi eða fara í samstarf við aðra? "Ríkisútvarpið hefur alltaf lýst yfir áhuga á samstarfi við aðra aðila en á markaðnum í dag er komin upp ný staða - við þurfum að meta okkar mál út frá því," segir Eyjólfur. "Bæði Norðurljós og Landssíminn hafa boðið okkur til samstarfs," segir hann en ekki liggur fyrir hvort samið verði við þessa aðila. "Það þarf að skoða öll skilyrði og meta hagsmuni Ríkisútvarpsins vel áður en gengið er til samstarfs."