Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð munu sameinast um sýningarskála á heimsýningunni EXPO 2005 í Aichi í Japan. Sýningin hefst þann 25. mars 2005. Norræni skálinn er 1300 fermetrar að stærð og þar verður gestum kynnt framsækin evrópsk lýðræðisríki og framlag þeirra á mikilvægum sviðum eins og á sviði náttúru- og umhverfisverndar, í svæðasamstarfi, menningu og hönnun.

"Mörg sameiginleg gildi og sérkenni, einkenna Norðurlöndin" segir Valgerður
Sverrisdóttir samstarfsráðherra Íslands um sameiginlega þátttöku
Norðurlandanna á EXPO. "Þegar við leggjum saman krafta okkar, aukum við
möguleikana á að kynna heiminum allt það sem við eigum sameiginlegt og
einnig mikilvægi þess sem við eigum ólíkt. Það er þess vegna sem við höfum
ákveðið að sameinast um sýningarskála í Aichi."

Sjálfbær þróun

Pertti Huitu aðalsendifulltrúi Norðurlandanna á sýningunni segir; "Japanir
hafa sýnt áhuga á samfélagsgerð okkar, á leikskólum og skólum okkar og
hvernig ummönnun aldraðra er háttað. Sjálfbær þróun er meginþema á
heimssýningunni, á þessu sviði erum við að mörgu leiti í sterkri aðstöðu.
Það er því sjálfgefið að orkumál, skógrækt og -iðnaður og matvælaframleiðsla séu áberandi á sýningunni í Aichi.

Takmarkið er að efla kynni og samstarf milli Norðurlanda annars vegar og
Japans og Asíu hins vegar.

"Sambandið á milli Norðurlandanna og Japan er náið", segir Valgerður
Sverrisdóttir samstarfsráðherra Íslands. "Í Japan er borin virðing fyrir
norrænum matvælum vegna gæða þeirra og öryggis og norræn hönnun er einnig mjög vinsæl. Auk þess einkennist Japan eins og Norðurlöndin af miklum fjárfestingum í rannsóknum og þróun, sérstaklega innan sviða sem tengjast sjálfbærri orku og skógrækt. Tengsl okkar við Japan hafa farið vaxandi m.a. á sviðum viðskipta- og menningar. Með því að taka þátt í heimssýningunni EXPO 2005 í Aichi vonumst við til að styrkja tengslin enn frekar."

Norðurlöndin eiga sér langa siglingahefð hún hefur þróast með ýmsum hætti.
Hafið og skip sem myndlíkingar fyrir ný tengsl, eru því eðlileg þemu í
sýningarskálanum.

Norræni sýningarskálinn á heimssýningunni EXPO 2005 í Aichi í Japan verður
stór fundarstaður norrænna stjórnvalda, atvinnurekenda og listamanna.
Sýningarskálinn þjónar því fleiri hlutverkum en að vera sýning, hann er
einnig bæði sýndar- og raunverulegur fundarstaður.
Það eru ríkisstjórnir Norðurlandanna fimm auk fjölda einkafyrirtækja og
stofnanna sem fjármagna þátttöku Norðurlandanna í heimssýningunni.