Norðurlöndin, Hollendingar og Bretar komu í veg fyrir að fyrsta endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins færi fram 3. ágúst næstkomandi - eins og til stóð samkvæmt dagskrá stjórnar sjóðsins. Endurskoðuninni var frestað um ótiltekinn tíma vegna þess að Alþingi hefur ekki afgreitt frumvarpið um Icesave-ríkisábyrgðina.

Þetta kom fram á sameiginlegum fundi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra í stjórnarráðinu í morgun. Þar gafst blaðamönnum færi á að spyrja þau út í ástæðu þess að AGS hefði ákveðið að fjalla ekki um Ísland eftir helgi.

Fram kom í máli Steingríms á fundinum að umboð stjórnvalda í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi frá sínum þjóðþingum til að veita Íslendingum lán væru tengd við afgreiðslu Icesave-málsins.

Eins og kunnugt er, er frumvarpið um Icesave-ríkisábyrgðina enn til umfjöllunar í fjárlaganefnd Alþingis og verður í fyrsta lagi afgreitt þaðan til annarrar umræðu í næstu viku.

„Það þarf svo enginn að fara í grafgötur um það hver var afstaða Hollendinga og Breta í málinu. Þeir voru ekki hjálplegir í því að fá þessa fyrirtekt," sagði Steingrímur enn fremur á blaðamannafundinum í morgun.

Jóhanna tók í svipaðan streng: „Í mínum huga er alveg ljóst að ef þetta hefði verið frágengið af hálfu Norðurlandanna [...] hefði verið erfiðara - eða að minnsta kosti mjög erfitt - fyrir Breta og Hollendinga að stöðva endurskoðun áætlunarinnar."

Ræddi við fjármálaráðherra hinna Norðurlandanna en án árangurs

Steingrímur sagði að hann hefði að undanförnu rætt við fjármálaráðherra hinna Norðurlandanna „og rætt oftar en einu sinni við suma fjármálaráðherrana í því skyni að reyna að fá þá til að leggja því lið að endurskoðunin færi fram."

Þegar hann var spurður hvort Norðurlöndin væru með þessu að taka þátt í því að kúga Íslendinga til að samþykkja Icesave-samningana, sagðist hann ekki vilja taka þannig til orða. „Það á ekki að nota þau orð," svaraði hann og lagði síðan áherslu á að hann mæti það mikils að Norðurlöndin veittu Íslendingum lán. „Við skulum ekki gera lítið úr þeirri staðreynd," bætti hann við og sagði stuttu síðar: „Við hefðum þó helst viljað að endurskoðunin færi fram í ljósi þeirrar stöðu sem komin var upp."

Þar vísaði hann til þess að allt væri frágengið af hálfu íslenskra stjórnvalda varðandi efnahagsáætlunina. „Það eina sem ekki er algjörlega frágengið af öllu tagi er Icesave-málið. Það er sú staðreynd að Icesave-málið er enn til umfjöllunar á Alþingi."

Steingrímur sagði enn fremur, spurður frekar út í samskiptin við AGS, að starfsmenn sjóðsins hefðu reynt sitt til þess, eins og hann orðaði það, til þess að hægt yrði að taka endurskoðunina fyrir hjá stjórn sjóðsins í næstu viku „en pólitíkin réði að lokum," bætti hann við.

Hann sagði einnig aðspurður að rætt hefði verið við bresk og hollensk stjórnvöld undanfarna daga vegna málsins en vildi ekki upplýsa frekar um þau samskipti.

Fram kom á blaðamannafundinum að AGS væri ekki búinn að senda frá sér formlega yfirlýsingu vegna málsins. Fulltrúar hans væru þó búnir að upplýsa íslensk stjórnvöld um innihald hennar.