Gera má ráð fyrir því að stjórn Norðurturnsins ehf. muni á næstu dögum óska eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu.

Þetta staðfestir Halldór Jónsson hrl., aðstoðarmaður á greiðslustöðvunartíma, í samtali við Viðskiptablaðið en í lok síðustu viku felldi Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms frá því fyrr í sumar þar sem félaginu var veitt áframhaldandi greiðslustöðvun.

Stærstur hluti kröfuhafa, eða eigendur 94% krafna, höfðu samþykkti áframhaldandi greiðslustöðvun en einn kröfuhafi, Sigurður Sigurgeirsson, mótmælti og kærði úrskurð Héraðsdóms til Hæstaréttar eins og Viðskiptablaðið greindi frá um miðjan júní.

Hæstiréttur féllst á rök hans og taldi annmarka á málatilbúnað varnaraðila, þ.e. Norðurturnsins.

Sem kunnugt er stendur Norðurturninn við hlið Smáralindarinnar ókláraður.