Að sögn Jóns Helga Guðmundssonar, stjórnarformanns Norvik Bank, eru frekari kaup á fjármálafyrirtækjum í Austur-Evrópu til skoðunar hjá eigendum bankans. Nú þegar rekur bankinn systurfyrirtæki í Armeníu auk útibús í Moskvu og sagði Jón Helgi í samtali við Viðskiptablaðið í dag að aðrir möguleikar væru vissulega í skoðun.

"Við erum mikið að horfa í kringum okkur og sjáum bara hvað framtíðin ber í skauti sér. Við erum "strategískt" vel sett þarna í Lettlandi og við erum þar með fólk sem þekkir þetta umhverfi og eru sérfræðingar í fjármálageiranum þarna. Það er á stefnu bankans að útvíkka starfsemi sína með uppkaupum og opnun útibúa."

Jón Helgi sagði að þeir væru nú þegar með skrifstofu í Minks í Hvít-Rússlandi og sömuleiðis hefur verið horft á möguleika í Úkraínu. Jón Helgi sagði að engar tímasetningar hefðu verið settar fram en ljóst væri að tækifæri í þessum heimshluta væru mörg.

Í lok maí var Norvik Bank í 10. sæti af 24 skráðum bönkum í Lettlandi þegar tekið er mið af eignum en þá var hlutafé bankans aukið um átta milljónir lats í samræmi við þá stefnu stjórnenda hans styðja jöfnum höndum við útvíkkun bankans með aukningu hlutafjár. Gert er ráð fyrir að hagnaður bankans eftir skatta fari yfir 10 milljónir lats eða ríflega 1.200 milljónir króna á þessu ári. Straumborg, félag í eigu Jóns Helga og fjölskyldu, fer með 51,06% eignarhlut í bankanum. Stefnt er að því að Norvik verði á meðal fimm stærstu banka Lettlands. Heildareignir Norvik Bank jukust um 15% á árinu 2006.

Norvik Bank opnaði nýtt húsnæði í Moskvu fyrr í sumar og um svipað leyti fékk bankinn lánshæfismat frá matsfyrirtækinu Moodys. Að sögn Jóns mun bankinn fá nýtt mat frá Fitch Ratings og sagðist Jón vera bjartsýn á að einkunnin batnaði þá enn frekar en Norvik Bank er nú með jákvæðar horfur hjá Fitch og einkunnina B+.