Hagnaður Norvik, móðurfélags Byko, dróst saman um 5,5% milli ára og nam 10 milljónum evra, jafnvirði 1,5 milljörðum króna. Rekstrartekjur og launakostnaður lækkuðu um 9% á síðasta ári.

Hlutdeild Norvik í afkomu hlutdeildarfélagsins Bergs Timber, sem Norvik fer með 63,6% hlut í, var um 1,5 milljarðar króna. Bókfærður eignarhlutur Norvik í Bergs Timber hækkaði úr 9,8 í 11,6 milljarða króna á árinu vegna hækkunar á hlutabréfaverði félagsins í sænsku kauphöllinni. Gengi félagsins hefur hækkað um tæp 70% frá áramótum og má því ætla að eignarhlutur Norviks sé nú virði 19,9 milljarða króna.

Byko skilaði 776 milljóna króna hagnaði á síðasta ári, samanborið við 968 milljónir árið 2019. Vörusala Byko jókst þó um 3,9 % milli ára og nam 20,8 milljörðum.