Eignarhaldsfélagið Norvik hf., sem á og rekur meðal annars byggingavöruverslunina Byko, hagnaðist um 31,1 milljón evra á árinu 2018, eða sem samsvarar 4,3 milljörðum íslenskra króna. Er það aukning um tæplega 42%, eða 9,2 milljónir evra, frá árinu 2017 þegar hagnaðurinn nam 21,9 milljón evra. Miðað við gengi dagsins í dag samsvarar það 3 milljörðum króna.

Rekstrartekjur félagsins jukust um 13,1% milli ára, úr 147,6 milljónum evra í 166,9 milljónir evra. Á sama tíma jukust rekstrargjöldin um 17%, úr 129 milljónum evra í 151 milljón evra. Rekstrarhagnaður fyrirtækisins (EBIT) eftir afskriftir og fjármagnsliði dróst því saman um 6% milli ára, úr 13,7 milljónum evra í 12,9 milljónir evra.

Fjármagnsliðir, þar með talið gengismunur, kostaði félagið 3,1 milljón evra á árinu, sem er nálega tíföldun milli ára. Á móti koma tekjur af hlutdeildarfélögum, þar af mest frá Bergs Timber AB í Svíþjóð sem félagið á tæplega 65% eignarhlut í, sem námu 11,2 milljónum evra, eða sem samsvarar rúmlega 1,5 milljörðum króna.

Því til viðbótar koma tæplega 2,4 milljónir evra vegna sölu á 24% eignarhlut í Bókun hf. á síðasta ári. Félagið keypti hlutinn árið áður á 2 milljónir evra.

Eigið fé félagsins jókst um 10,7% milli ára, úr 173,3 milljónum evra í 194 milljónir evra á sama tíma og skuldirnar lækkuðu um nærri fjórðung, eða úr 101,4 milljónum í 76,3 milljónir evra. Þannig lækkuðu eignir félagsins milli ára úr 274,7 milljónum í 270,3 milljónum evra, en eiginfjárhlutfallið jókst úr 63,1% í 71,8%.

Brynja Halldórsdóttir er framkvæmdastjóri félagsins, sem er að stærstum hluta, eða rúmlega 42% í eigu Stefna ehf. Næst stærsti eigandinn er Jón Helgi Guðmundsson á tæplega 28%, en Steinunn, Guðmundur Halldór og Iðunn Jónsbörn eiga hvort um sig um 9% í félaginu. Þórunn, Bjarnheiður K., Sjöfn og Björk Guðmundsbörn eiga svo hver um sig innan við 1% eignarhlut.