Norvik, félag í eigu Jóns Helga Guðmundssonar og fjölskyldu hans, hefur undirritað samning um sölu á hluta innlendrar starfsemi félagsins til félags í rekstri Stefnis. Undir er verslunarrekstur á vegum Kaupáss á borð við Elko og Intersport auk vöruhótelsins Kakka og auglýsingastofuna Expo. Norvik mun halda eftir Byko og erlenda starfsemi Norvik.

Viðskiptablaðið sagði frá því í apríl að viðræður væru hafnar um sölu á verslunum Norvik til sjóðsins SÍA II, sem er í rekstri Stefnis. Stefnir er dótturfélag Arion banka.

Kaupverð er trúnaðarmál, að því er segir í tilkynningu um kaupsamninginn en gerður er fyrirvari um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, Logos og KPMG voru ráðgjafar Norvikur við söluna.

Í tilkynningunni er haft eftir Jóni Helga að það sé mat fjölskyldunnar að komið sé að kynslóðaskiptum í fyrirtækinu. „Okkur er að sjálfsögðu ekki sama hverjir taka við keflinu á þessum tímamótum og það skiptir miklu að nýir eigendur deila að miklu leyti okkar sýn um uppbyggingu fyrirtækisins,“ segir hann.

Jón sagði í samtali við Viðskiptablaðið í apríl mikilvægt að nýir eigendur deili sýn um uppbyggingu fyrirtækisins. Þá skipti ekki minna máli að samkeppnisaðilar kaupi ekki fyrirtækið heldur fjárfestar sem sjái fyrir sér að skrá það á markað.