Norvik, fyrrverandi eigandi Krónunnar, hefur höfðað skaðabótamál á hendur Högum, eiganda Bónuss, fyrir Héraðsdómi Reykjaness vegna meintra brota á samkeppnislögum á árunum 2005 og 2006. Bónus átti á þessum tíma í verðstríði við Krónuna og Nettó. Kemur þetta fram í Fréttablaðinu í dag.

Samkeppniseftirlitið sektaði Haga um 315 milljónir króna árið 2008 vegna umræddra brota. Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins kom fram að Bónus, sem væri markaðsráðandi fyrirtæki, hefði selt mjólk og mjólkurvörur langt undir kostnaðarverði með þeim afleiðingum að verslanir Bónuss voru reknar með tapi.

Ekki liggur fyrir enn hversu háar skaðabætur Norvik mun krefjast, en í frétt Fréttablaðsins er haft eftir Andra Árnasyni, lögmanni Norvik, að matsmenn séu að störfum.