Norvik hf, sem er að stórum hluta í eigu Jóns Helga Guðmundssonar og fjölskyldu hans, var í dag sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur af 2,3 milljarða króna kröfu gamla Landsbankans, LBI hf.

Deilan snerist um gjaldmiðlaskiptasamninga sem Norvik gerði við Landsbankann fyrir hrun. Samningarnir voru með mismunandi gjalddaga, nokkra á ári, út samningstímann, en engar greiðslur átt sér stað milli aðilanna eftir að Fjármálaeftirlitið greip inn í rekstur Landsbankans. Landsbankinn sendi svo Norvik bréf í janúar 2009 þar sem sagt var að staða samninganna væri neikvæð um 2,3 milljarða króna og þegar því bréfi og fleiri slíkum greiðsluáskorunum var ekki svarað var málið höfðað.

Niðurstaða dómsins byggir í raun á almennu dreifibréfi frá skilanefnd Landsbankans sem sent var út þann 16. október 2008. Þar segir að að óbreyttu verði afleiðusamningum lokað og að í því felist að sjóðstreymis- og gengisvarnir á lána- og eignasöfnum viðskiptavina falli niður. Starfsmaður Norvik sendi bréf til bankans þar sem spurt var af hverju afleiður fái ekki að lifa út líftímann og fékk það svar að Nýi Landsbankinn myndi kaupa flestar tapstöður viðskiptavina og vinna þær með viðkomandi. Þetta var hins vegar rangt því FME hafði snúið við fyrri ákvörðun og áttu stöður sem þessar áfram að vera í gamla bankanum.

Í ljósi þessa taldi Norvik að samningarnir væru niður fallnir og því hafi hann ekki þurft að standa skil á greiðslum á gjalddaga.

Í dómnum segir að þegar orðalag fyrra bréfsins er virt verði að telja að Norvik hafi haft fulla ástæðu til að ætla að LBI væri með bréfinu að tilkynna ósk sína um að fella umrædda samninga niður. Svar bankans við fyrirspurn stefnda hinn 16. október 2008, eins óljóst og það var, gaf fyrirsvarsmanni Norvik ekki tilefni til að ætla að skilningur hennar, sem var sá að bréfin væri niður fallin, væri ekki réttur. Var Norvik því sýknað af kröfum LBI.