Hluthafar Norwegian samþykktu á hluthafafundi í morgun áætlun stjórnenda félagsins þar sem skuldum félagsins verður breytt í hlutafé.

Lánardrottnar Norwegian samþykktu aðgerðarpakkann í gær. Með því uppfyllir Norwegian skilyrði fyrir 2,7 milljarða norska króna láni frá norska ríkinu.

Núverandi hluthafar félagsins féllust þar með á að gefa eftir nær allt hlutafé sitt í félaginu, og eiga nú einungis um 5% hlut í flugfélaginu. Hefðu þeir ekki fallist á tillöguna hefði félagið að öllum líkindum siglt í gjaldþrot og hlutabréfin orðin verðlaus.

Hvað tekur við?

Í umfjöllun NRK er velt upp hve lengi þessir fjármunir muni duga. Norwegian skuldi enn um 50 milljarða norska króna. Þá fljúgi félagið einungis tuttugu til þrjátíu flug á dag á sjö flugvélum. Venjulega fljúgi Norwegian um 600 flug á dag.

Þá er velt upp hvernig Norwegian eigi að fara að því að borga lánin til baka. Skuldum hlaðið félag muni eiga í erfiðleikum með kröftuga viðspyrnu þegar flugsamgöngur hefjist á ný.

Flugfélagið stefnir að óbreyttu á því að fljúga einungis sjö flugvélum næsta árið nema aðstæður í flugheimum taki að lagast. Hefðbundið áætlunarflug hefjist í hægum skrefum eftir ár og það verði ekki komið á fullt fyrr en í ársbyrjun 2022.