Dómari á Írlandi veitti í dag heimild til að framlengja greiðslustöðvun dótturfélaga Norwegian á Írlandi, sem hófust 18. nóvember. Stefnt er að því að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins verði lokið 26. febrúar næstkomandi, en greiðslustöðvunin getur lengst staðið í 150 daga.

Hefði dómarinn hafnað því að framlengja greiðslustöðvunina hefði félagið verið í talsverðum vanda þar sem stór hluti skulda Norwegian er í tengslum við leigusamninga flugvéla í gengum írsku félögin. Gert hefur verið ráð fyrir að fáist ekki frekara fé í reksturinn eða greiðslufrestir kunni lausafé Norwegian að vera uppurið í janúar.

Ætla að sækja meira hlutafé

Flugfélagið boðaði fyrir helgi að til stæði að reyna að safna fjórum milljörðum norskra króna í gegnum hlutafjárútboð, auk þess að breyta skuldum í hlutafé og skera flugflota félagsins enn frekar niður. Sem stendur eru einungis 6 af 140 flugvélum félagsins í notkun.

Þá vill félagið fá að greiða leigusölum flugvéla í samræmi við notkun flugvélanna fram til ársins 2022. Írsku dótturfélögin fóru í greiðslustöðvun í kjölfar þess að norsk stjórnvöld tilkynntu að þau myndu ekki veita Norwegian frekari fjárstuðning þann 8. nóvember.

Kröfuhafar tapa miklu á gjaldþroti

Í skýrslu sem Deloitte vann í tengslum við greiðslustöðvunina á Írlandi kemur fram að ef Norwegian færi í þrot myndu kröfuhafar félagsins tapa jafnvirði um 64 milljarða norskra króna, um 980 milljarða íslenskra króna. Bókfært virði skulda Norwegian í lok september var um 67 milljarðar norskra króna eða um 1.020 milljarðar íslenskra króna. Því mun gjaldþrot vart koma kröfuhöfum til góða. Í skýrslunni segir enn fremur að ef áætlanir stjórnenda ganga eftir um niðurskurð og eignasölu auk þess að kröfuhafar fallist á frekari skuldbreytingu kann að vera að reksturinn geti orðið arðbær en stefnt er að því að reksturinn fari að skila hagnaði árið 2022.