Norska lággjaldaflugfélagið fékk fyrir helgi sína fyrstu Boeing 787 Dreamliner vél afhenta, en vélin er leigð af bandaríska flugvélaleigufyrirtækinu International Lease Finance Corporation (ILFC).

Þetta er jafnframt frysta Dreamliner vélin sem ILFC fær afhenta af 74 pöntuðum vélum. Þetta er hins vegar sjö hundraðasta Boeing vélin sem þetta eitt af stærstu leigufyrirtækjum heims fær afhenta. ILFC og Boeing halda um leið upp á 40 ára viðskiptasamband í ár. Haldið var upp á viðburðinn með pompi og prakt í Seattle á fimmtudag þegar vélin var afhent.

Norwegian á hins vegar átta 787 Dreamliner vélar pantaðar, ýmist í gegnum leigufélög eða í beinni pöntun hjá Boeing. Þannig keypti félagið kauprétt af þremur slíkum vélum frá Icelandair Group árið 2010.

Norska lággjaldaflugfélagið mun nota vélarnar á lengri flugleggi sína, t.d. frá Osló og Stokkhólmi til New York og Bangkok. Félagið hóf nýlega að fljúga til New York en hefur til þessa notað leigðar Airbus A340 vélar þar sem afhending á Dreamliner vélunum hefur tafist. A340 vélin er mun stærri en um leið mun dýrari í rekstri, þá sérstaklega hvað varðar eldsneyti. Í nóvember mun félagið einnig hefja flug til Fort Lauderdale frá Osló, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn.