Eftir verðfall síðustu daga er markaðsvirði Icelandair orðið hærra en markaðsvirði norska flugfélagsins Norwegian. Sem stendur er Norwegian metið á um 25 milljarða íslenskra króna eftir að hafa lækkað um 10,4% í dag og um 70% undanfarinn mánuð.

Icelandair Group er metið á tæplega 29 milljarða króna eftir að hafa lækkað 4,91% í viðskiptum dagsins og 40% undanfarinn mánuð. Þetta vekur athygli endar telur flugfloti Norwegian um 160 flugvélar en Icelandair hyggst fljúga á 31 flugvél í sumaráætlun sinni.

Gengi hlutabréfa norska lágfargjaldaflugfélagsins Norwegian stendur nú í 10,96 norskum krónum á hlut eftir 10,4% lækkun dagsins. Bréf Norwegian hafa þó tekið töluvert við sér eftir fyrstu viðskipti dagsins en við opnun markaða hafði gengið lækkað um 25% niður í 8,8 norskar krónur á hlut.

Sjá einnig: Norwegian í frjálsu falli

Líkt og með önnur flugfélög hefur Norwegian fundið fyrir áhrifum kórónaveirunnar en lækkun á bréfum félagsins hefur þó orðið töluvert meiri en annarra félaga. Eins og fjallað var um á föstudag er lausafjárstaða félagsins sögð veik auk þess sem afkomuspá félagsins var afturkölluð á fimmtudag.

Ragnar M. Gunnarsson bendir á verðfall Norwegian á Twitter.