Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá að undanförnu er norska lággjaldaflugfélagið Norwegian í rekstrarerfiðleikum . Nú hefur félagið fellt niður um 3.000 flug fram í miðjan júní mánuð vegna samdráttar í eftirspurn vegna kórónuveirunnar. Um er að ræða um 15% af flugferðum félagsins á umræddu tímabili. Telegraph greinir frá þessu.

Félagið hefur ráðist í fleiri sparnaðaraðgerðir og hefur m.a. stór hluti starfsfólks félagsins verið sendur í leyfi.

Sjá einnig: Icelandair verðmætara en Norwegian

Þá segir í frétt Reuters að flugfélagið hafi tímabundið lagt niður flug til og frá Ítalíu vegna kórónuveirunnar. Er talið að þetta gæti dýpkað fjárhagsvandræði félagsins. Stjórnvöld á Ítalíu hafa sett landið í sóttkví fram á næsta mánuð, í þeirri von um að ná tökum á útbreiðslu veirunnar.