Norska flugfélagið Norwegian þarf að aflýsa um 140 flugferðum í þessari viku vegna afbókana hjá félaginu. Þetta er fullyrt á norska viðskiptavefnum e24.

Allt stefndi í verkfall flugmanna Norwegian allt þangað til að samningar náðust í morgun. En vegna yfirvofandi verkfalls hafði fjöldi farþega afbókað og því var ákveðið að fella niður flugferðirnar.

Lasse Sandaker-Nilsen, upplýsingafulltrúi Norwegian, segir í samtali við E24 að hann geti ekki staðfest fjölda flugferða sem verði felldar niður í vikunni. Þær séu þó örugglega yfir 100.