Norwegian á ekki von á því að flugsamgöngur komist í fyrra horf fyrr en á árinu 2022. Samkvæmt áætlun sem félagið kynnti í dag er gert ráð fyrir að félagið muni svo gott sem hætta öllu millilandaflugi fram til apríl 2021. Leggja á öllum flugflota Norwegian næstu tólf mánuði að undanskildum sjö flugvélum sem nýta á í innanlandsflug í Noregi. FT og Bloomberg greina frá.

Samkvæmt áætluninni hyggst félagið auka flugframboð sitt í hægum skrefum fram eftir árinu 2021 og hefja svo gott sem eðlilega starfsemi í janúar 2022. Þó á að minnka flugflota félagsins og einbeita sér að arðbærari flugleiðum. Því er búist við að flugfloti félagsins telji 110 til 120 flugvélar árið 2022 en þær voru 168 áður en heimsfaraldurinn hófst.

Áætlunin var kynnt í tengslum við boðaða hlutafjáraukningu félagsins. Hún miðar að því að fá lánardrottna til að breyta lánum til Norwegian í hlutafé. Gangi það eftir mun eignarhlutur núverandi hluthafa félagsins að mestu þurrkast út. Þá verða leigusala flugvéla Norwegian meirihlutaeigendur félagsins, en flugfélagið er í talsverðum vanskilum með leigugreiðslur.

Norwegian hefur verið á barmi gjaldþrots undanfarin ár. Hlutabréf í Norwegian hafa fallið um 97% á síðustu tveimur árum og hefur félagið þrívegis sótt sér fjármagn til að forða félaginu frá því að fara í þrot.

Skuldbreytingin er taldar nauðsynleg svo flugfélagið uppfylli skilyrði um lán upp á 2,7 milljarða norskra króna, jafnvirði um 37 milljarða íslenskra króna, með ríkisábyrgð til félagsins.