Lággjaldaflugfélagið Norwegian flýgur í sumar beint frá Keflavíkurflugvelli til Alicante á Spáni, að því er fram kemur á síðu félagsins . Verður flogið tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum og hefst flugið þann 5. júní.

Flýgur félagið einnig til Alicante frá Gardermoen flugvelli við Osló, Torp Sandefjord, Ålesund, Bergen, Harstad/Narvik, Molde, Stavanger, Tromsø og Þrándheims, allt í Noregi.

Einnig flýgur flugfélagið frá Köln, Düsseldorf, Hannover, Hamburg og München í Þýskalandi, frá Stokkhólmi, Gøteborg og Karlstad í Svíþjóð, Kaupmannahöfn, Álaborg og Billund í Danmörku, Helsingi í Finnlandi auk Gatwick flugvallar í Bretlandi og Manchester.

Flugfélagið stefnir að því að auka sætaframboð sitt um fimmtung frá síðasta sumri, það er upp í 941.904 sæti frá 787.896 sætum. Árið 2016 ferðuðust 1,05 milljón farþegar með flugfélaginu sem er aukning um 17% frá árinu 894.124 árið 2015.