Flugfélagið Norwegian Air, sem vinnur hörðum höndum að því að endurskipuleggja fjárhag sinn, hefur greint frá því að farþegafjöldi félagsins hafi dregist saman um 91% í ágúst, samanborið við sama tímabil í fyrra. Ríflega 313 þúsund farþegar flugu með flugfélaginu í ágúst en í fyrra voru farþegarnir 3,5 milljónir. Reuters greinir frá.

Norwegian hefur líkt og önnur flugfélög lent í miklum hremmingum vegna COVID-19 faraldursins, en þó var farið að bera á rekstrarvanda hjá flugfélaginu áður en COVID-19 skall á.

Stór hluti af flota félagsins situr óhreyfður á jörðu niðri vegna samdráttar í eftirspurn eftir flugsætum vegna veirunnar. Munu 25-30 flugvélar Norwegian annast áætlanaflug næstu mánuðina sem þýðir að yfir 100 flugvélar félagsins munu standa óhreyfðar á jörðu niðri.

Lausafé uppurið í apríl ef ekki fæst frekari fjármögnun

Kröfuhafar og leigusalar Norwegian fengu félagið í raun í fangið í maí sl. og neyddust til að veita flugfélaginu aðgengi að fjármagni til að félagið gæti fengið lán með ríkisábyrgð upp á 3 milljarða norskra króna frá norska ríkinu.

Vonast flugfélagið til að tryggja sér frekari fjármögnun fyrir lok þessa árs, til að koma í veg fyrir að lausafé þess verði uppurið í apríl 2021. Þá á félagið einnig í viðræðum við norsk yfirvöld um frekari fjárhagsaðstoð.