Í tilkynningu frá norska lággjaldaflugfélaginu Norwegian segir að vegna mikillar eftirspurnar muni fyrirtækið hefja flug á 76 flugleiðum nú í júlí og Íslandsflugið frá norsku höfuðborginni er ein þeirra. Þetta kemur fram á vef Túrista .

Frá falli WOW air hefur Norwegian verið stórtækast í farþegaflugi milli Íslands og Spánar. Síðasta vetur hélt félagið út áætlunarflugi hingað frá Tenerife, Las Palmas, Alicante, Barcelona og Madríd.

Eftir fjárhagslega endurskipulagningu Norwegian nú í vor er óljóst hvað verður af útgerð félagsins á Spáni. Aftur á móti ætlar félagið að taka upp þráðinn í flugi milli Keflavíkurflugvallar og Óslóar fimmtudaginn 2. júlí. Í framhaldinu verður flogið tvisvar í viku út næsta mánuð og í ágúst verða ferðirnar þrjár í viku.