Norska lágfargjaldaflugfélagið Norwegian greindi frá þv í fyrr í dag að félagið hefði tímabundið sagt upp 7.300 starfsmönnum, um 90% af öllum starfsmönnum, samhliða því að fella niður um 85% flugferðum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og ferðabanna sem sett hafa verið vegna hennar.

Frá og með 25. mars næstkomandi fram til 17. apríl mun félagið  einungis sinna innanlandsflugi í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð auk þess að fljúga á milli Oslóar og hinna höfðuðborga Norðurlandanna fyrir utan Ísland.

Ljóst er að Norwegian á miklum rekstarerfiðleikum og lausafjárvanda enda er lausa- og eiginfjárstaða félagsins veik. Í lok síðasta árs var eiginfjárhlutfall þess 4,8% á meðan vaxtaberandi skuldir námu 58,3 milljörðum norskra króna eða um 780 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma nam laust fé einungis um 3,1 milljarði norskra króna. Þá hefur félagið skilað tapi þrjú ár í röð.

Í tilkynningu sem félagið sendi til norksu kauphallarinnar síðastliðin föstudag sagði Jacob Schram, forstjóri félagsins að félagið þyrfti mjög fljótlega á aðgerðum að halda til þess að styrkja lausafjárstöðu félagsins.

„Þrátt fyrir að við tökum aðgerðum stjórnvalda um að leggja niður skatta og gjöld á flugrekstur er ljóst að það mun ekki duga til þar sem við erum að takast á við mjög krefjandi aðstæður í augnablikinu,“ sagði Scharm í tilkynningunni.

Á blaðamannafundi seinna sama dag lét hann hafa eftir sér að félagið þyrfti á fjármagni að halda á næstu vikum en ekki mánuðum og sagðist bjartsýn á að norska ríkið myndi koma til hjálpar.

Miðað við ummæli Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs er alls ekki víst að norska ríkið muni koma til bjargar. Hún hefur látið hafa eftir sér að ríkið muni koma lífvænlegum fyrirtækjum til hjálpar en að sum þeirra muni verða gjaldþrota.

Gengi hlutabréfa Norwegian hefur lækkað um 11,75% í dag og um 81,2% frá áramótum. Markaðsvirði félagsins er nú 1.160 milljónir norskra króna eða um eða um 15,5 milljarðar íslenkra króna.

Leiðrétting: Upprunalega sagði að frá og með 21. mars yrði einungis flogið innanlandsflug og til höfuðborga Norðurlandanna frá Osló. Rétta er að þessi breyting mun eiga sér stað þann 25. mars. Þá mun flugfélagið einnig fljúga til Tælands til og frá Norðurlöndunum til loka mars.