Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian tapaði hundrað milljónum norskra króna, eða sem nemur yfir 1,8 milljörðum íslenskra króna, þegar miklar tafir urðu á ferðum þess til fjarlægra áfangastaða fyrir tveimur mánuðum. Þessu greinir RÚV frá.

Tafirnar urðu vegna þess að flugmenn efndu til stuttra verkfalla í ljósi ákvörðunar stjórnar félagsins um að færa flugáhafnir yfir í nýstofnuð dótturfélög. Enn hefur enginn fengið greiddar bætur vegna tafanna, en kærur 45 farþega eru til meðferðar.

Tap Norwegian í rekstri vegna tafanna nam 85 milljónum norskra króna á öðrum ársfjórðungi, sem er jafnvirði rúmlega eins og hálfs milljarðs íslenskra króna. Á sama tíma í fyrra var tapið 277 milljónir norskra króna.