*

mánudagur, 21. september 2020
Erlent 13. mars 2019 12:21

Norwegian vill skaðabætur frá Boeing

Lággjaldaflugfélagið býst við að Boeing greiði kostnaðinn af því að þeir geti ekki notað allar 18 MAX 8 vélar sínar.

Ritstjórn
Vélar Norwegian á jörðu niðri á Arlanda flugvelli í Stokkhólmi.
epa

Norska lággjaldaflugfélagið væntir þess að flugvélaframleiðandinn greiði kostnaðinn af því að félagið þurfti að kyrrsetja allar Boeing 7373 Max 8 vélar sínar.

„Við búumst við því að Boeing taki við þessum reikningi,“ segir í yfirlýsingu félagsins, sem á 18 vélar. Félagið aflýsti nokkrum flugleiðum á þriðjudag og á þriðja tug ferða í dag. Með tilflutningi farþega telur félagið sig þó geta haldið uppi þjónustu innan Evrópu á næstunni, en það er enn að leita lausna vegna flugferða milli Bandaríkjanna og Írlands.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa loftferðayfirvöld víða um heim, þar á meðal í Bretlandi, bannað flug véla af þessari gerð í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa á um 5 mánaða tímabili. Sögðu stjórnarmenn Icelandair ákvörðunina koma á óvart og að þar með væri notkun þeirra þriggja véla sem félagið á af þessari gerð sjálfshætt.

Dennis Muilenberg, forstjóri Boeing segist hins vegar vera sannfærður um öryggi vélanna, en vænta má að fjöldi fyrirtækja muni fara í mál við framleiðandann vegna skaða af kyrrsetningu vélanna. Hefur gengi fjölmargra flugfélaga sem starfrækja Boeing 737 MAX  vélar lækkað síðustu daga, þó Icelandair hafi hækkað á ný það sem af er degi, eða um 1,69% þegar þetta er skrifað.

Veðjuðu á Max vélarnar

Norwegian flugfélagið hefur að sögn Reuters veðjað á Max vélarnar sem helsta valkost sinn fyrir styttri og miðlungslangar flugleiðir á næstu árum, til að draga úr eldsneytisnotkun og lækka kostnað við flug.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur félagið safnað um 3 milljörðum norskra króna, eða andvirði um 42 milljarða íslenskra króna í vel heppnuðu hlutafjárútboði undanfarið. Hugðist félagið draga úr rekstrarkostnaði til að ná að reka félagið réttu megin við núllið á árinu eftir tap síðasta árs.

Félagið hyggst, líkt og Icelandair, taka við um 12 Boeing 737 Max vélum til viðbótar, og segir talsmaður félagins þau áform vera óbreytt að því er Reuters greinir frá.

Stikkorð: Boeing Norwegian skaðabætur